URL: https://www.coe.int/en/web/cpt/about-the-cpt_IS

CPT yfirlit

"CPT yfirlit"

Evrópusamningsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu


Varnir gegn pyndingum á frelsissviptum einstaklingum í Evrópu

CPT (Nefnd um varnir gegn pyndingum) skipuleggur heimsóknir á staði og stofnanir til þess að hafa eftirlit með meðferð á frelsissviptum einstaklingum. Meðal þessara staða eru fangelsi, lögreglustöðvar, meðferðarstöðvar fyrir unglinga, miðstöðvar innflytjenda í haldi, geðsjúkrahús, þjónustu- og dvalarheimili o.s.frv.

CPT-sendinefndir hafa ótakmarkaðan aðgang að stöðum þar sem frelsissviptir einstaklingar eru og heimild til að fara um slíka staði án hindrana. Þær eiga viðtöl í einrúmi við frelsissvipta einstaklinga og aðra sem veitt geta upplýsingar.

Að lokinni hverri heimsókn sendir CPT ítarlega skýrslu til viðkomandi ríkis. Skýrslan inniheldur niðurstöður nefndarinnar og tillögur, ábendingar og beiðni um upplýsingar. CPT fer einnig fram á ítarleg svör við álitaefnum sem fram koma í skýrslunni. Þessar skýrslur og svör eru grundvöllur  áframhaldandi viðræðna við viðkomandi ríki.

Fullt heiti CPT-nefndarinnar er „Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“. Heitið beinir athygli að tvennu: Í fyrsta lagi er nefndin evrópsk og í öðru lagi fjallar hún ekki eingöngu um „pyndingar“ heldur einnig ýmiskonar aðstæður sem gætu  talist  „ómannleg eða vanvirðandi meðferð eða refsing“.

Kerfi heimsókna

Sendinefndir, yfirleitt skipaðar nokkrum  nefndarmönnum CPT, stunda heimsóknir og eru í fylgd starfsfólks nefndarinnar og, ef nauðsyn krefur, annara sérfræðinga og túlka. 

Heimsóknir CPT-sendinefnda eru farnar reglulega (yfirleitt á u.þ.b. fjögurra ára fresti), en auk þess þegar sérstök ástæða þykir til.

Nefndin verður að tilkynna viðkomandi ríki þá fyrirætlun sína að heimsækja staði á landinu. Eftir boðun er CPT-nefndinni heimilt að heimsækja hvenær sem er og án fyrirvara staði þar sem einstaklingar kunna að hafa verið sviptir frelsinu.

Samvinna og þagnarskylda

Alþjóðasamningurinn að baki CPT felur í sér meginreglurnar um samvinnu og þagnarskyldu.

  • Aðalatriði starfsemi CPT er samvinna við stjórnvöld einstakra landa, þar sem tilgangurinn er að vernda frelsissvipta einstaklinga frekar en fordæma yfirvöld fyrir illa meðferð.
  • Annað sem einkennir starfsemi CPT er þagnarskylda: Niðurstöður nefndarinnar, skýrslur hennar og svör stjórnvalda eru að jafnaði trúnaðarmál. Engu að síður er heilmiklar upplýsingar að finna um starfsemi CPT á opinberum vettvangi.

Gögn CPT á opinberum vettvangi

  • Stjórnvöld ríkja geta sjálf farið fram á að skýrslur CPT verði gefnar út ásamt þeirra eigin svörum. Hingað til hafa flest ríki kosið að gefa út slík gögn.
  • Ef skortur er á samvinnu ríkis eða það neitar að bæta aðstæður í samræmi við tillögur frá CPT, getur nefndin ákveðið að leggja fram opinbera yfirlýsingu.
  • Að auki tekur CPT saman aðalskýrslu um starfsemi sína, sem gefin er út árlega.

Skipulag CPT

  • Nefndarmenn CPT eru óháðir og hlutlausir sérfræðingar með fjölbreytta reynslu, m.a. lögfræðingar, læknar og sérfræðingar í fangelsis- og löggæslumálum.
  • Kosinn er einn nefndarmaður fyrir hvert aðildarríki og er það Ráðherraráð  Evrópuráðsins sem velur þá.  Nefndarmenn gegna sínu hlutverki sem einstaklingar (þ.e. þeir starfa ekki sem fulltrúar þess ríkis sem kaus þá). Til þess að tryggja hlutleysi sitt enn frekar heimsækja nefndarmenn ekki sín heimalönd.
  • Skrifstofa CPT-nefndarinnar er hluti af Evrópuráðinu.

Forsaga

  • CPT var sett á stofn með samningi Evrópuráðsins, „Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“, sem öðlaðist gildi árið 1989.
  • CPT grundvallast á 3. gr. Evrópusáttmálans um mannréttindi, sem kveður svo á að „enginn skuli þurfa að líða pyndingar eða ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“.
  • CPT er ekki rannsóknarnefnd heldur sér hún ríkjum fyrir kerfi til að vernda frelsissvipta einstaklinga gegn pyndingum og annarskonar illri meðferð án aðkomu dómstóla. Nefndin bætir þannig upp starfsemi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Fullgildingar

  • Samningurinn hefur verið staðfestur af öllum 46 aðildarríkjum Evópuráðsins.
  • Að auki má Ráðherraráðið bjóða öðrum ríkjum utan Evrópuráðsins aðild að samningnum.